Áður birt á Frumkvöðull.com bloggsíðu – Tuesday, 29 January 2008
Einn aðal helsti kjarni frumkvöðlamennsku er að setja í gang verkefni sem hefur eitthvað nýtt fram að færa til þjóðfélagsins þar sem frumkvöðullinn býr. Í því fellst að þetta nýja er oftar en ekki nýtt fyrir þeim í þjóðfélaginu sem eiga að falla fyrir hugmyndinni. Ein af undantekningunum er þegar þetta nýja er fengið að láni erlendis frá og eru þá kannski einhverjir í þjóðfélaginu sem hafa nýtt sér þessa þjónustu eða keypt þá vöru sem um ræðir s.b. KFC, DOMINOS, STARBUCKS (eða kaffihús af svipuðu tagi). Vegna þekkingar eru þeir mun viljugri til að láta á reyna og styðja við bakið á frumkvöðlinum með einhverjum hætti. Þeir hafa trú á verkefninu eða eru tilbúinir til að standa fyrstir í röðinni af nýjum kúnnum og eru tilbúnir til að greiða uppsett verð fyrir vöruna eða þjónustuna.Ef verkefnið er byggt á þekktum normum er það ein leið til að eiga auðveldara með að innleiða verkefnið. Dæmi um þetta er t.d Bónus sem byggir á þeirri einföldu lógík að allt sé ódýrast þar og gengur reksturinn út á að hafa allan kostnað og útlit og innihald og utanumhald sem ódýrast. Þetta er dæmi sem velþekkt er erlendis. Annað dæmi um velþekkt norm er þegar fyrirtæki býður upp á mun betri og meiri þjónustu og jafnvel talað er um lúxus sem aðal útgangspunkt. Dæmi um þetta gæti verið t.d limmósínu-þjónusta eða sala á hátískufatnaði eða fatnaði byggða á einum hönnuði eða persónu sem er þekkt eða fræg.Það sem er allra erfiðast að innleiða, er að fara í gang með verkefni sem er svo nýtt af nálinni að enginn í þjóðfélaginu þekkir til neins slíks sambærilegs verkefnis sem hægt er að miða við. Verkefnið hefur nýja nálgun, er byggt á nýrri hugmyndafræði og er ætlað að gera allt annað og miklu meira en aðrir sambærilegir hlutir sem hafa verið reyndir áður. Dæmi um þetta er t.d. Latibær. Þar er um að ræða hugmynd um að bæta heilsu barna með afþreyingarefni sem bæði er ætlað að vera til upplýsingar og fræðslu og menntunar. Hugmyndin snýst ekki um að búa til einn lítinn sjónvarpsþátt heldur marga og framleiða þá með þeim hætti að ekki sé annað til sem er þekkt og sambærilegt á þessu landi.
Svona verkefni er hvað erfiðast að koma í gang fyrir frumkvöðul og er ekki fyrir hvern sem er að standa og falla með. Nokkrir þættir eru mikilvægir í þessu samhengi og vert er að kíkja ögn nánar á þá til að skilja forsendurnar.
- Upphafsmaðurinn Magnús Scheving hafði mikla reynslu af hreyfingu og var búin að leggja stund á fyrirlestra fyrir börn í mörg ár áður en hann fór í gang með verkefnið fyrir alvöru.
- Hann hafði markvist unnið að uppbyggingu verkefnisins í gegnum langan tíma og hóf verkefnið með bók og leikriti sem tók mörgum markverðum breytingum í gegnum tímann.
- Hann hafði lagt allt undir og að auki lagt fyrir til að eiga fyrir þeim kostnaði sem til féll í upphafi.
- Hann hafði í kringum sig fólk sem hafði trú á honum og allavega einhverja sem voru tilbúnir til að styðja við bakið á honum. Þar má m.a nefna konu hans sem hefur verið honum mjög mikilvæg því hún hefur m.a séð um fjármálin og er það ekki lítill þáttur í vexti fyrirtækis.
- Magnús hefur í gegnum tímann haft mikla orku og vinnugetu og haft stóra sýn á því hvað hann ætlaði sér. Það að vera framsýnn og stórhuga getur á svona stundum verið kostur þó svo að margur telji manninn galinn fram að því að sýnin verði að veruleika.
Það að vera frumkvöðull þarf ekkert endilega að snúast um það að verða jafn stór, frægur, ríkur og umsvifamikill og Magnús Scheving. Konan sem stofnar lítið konfektbakarí niður í bæ með einum starfsmanni er alveg jafn mikil frumkvöðull og getur haft það alveg jafn gott og Magnús. Málið snýst um að snúa sér að því sem maður er góður í og slípa hjólið þangað til það rennur vel. Ef maður er góður í einhverju, þá verður maður líka ánægður við að framkvæma það og þá eru miklar líkur til að manni takist að fá salt í grautinn við að framkvæma það sem maður er góður til. Ef manni tekst svo að fá fólk í lið með sér sem er gott í einhverju öðru sem maður hefur þörf fyrir í tengslum við verkefnið……ja þá eru miklir möguleikar á að árangur náist í takti við fyrirtætlanir. EN…….vanda skal verk þá hafið er og í upphafi skyldi endinn skoða.