Fjölgum vel reknum sprotafyrirtækjum á Íslandi.

Hver er skilgreiningin á frumkvöðli ? (5)

 Áður birt á Frumkvodull.com – Monday, 04 February 2008

Orðið frumkvöðull er mikið notað þessa daganna og verður mér tíðrætt um þetta orð. Orðið er ekki nýtt en þó ekki endilega gamalt og hefur fyrst núna hin síðari ár verið tekið í notkun í takt við þann tíðaranda sem er við líði í íslensku þjóðfélagi. Orðið er skýrt út í íslenskri orðabók á eftirfarandi hátt:

Frum-kvöðull (K) 1. forgöngumaður, upphafsmaður. 2. (E) efni sem kemur af stað fjölliðun risasameinda með því að breytast sjálft.

Merkilegt nokk þá tel ég báðar skýringar hér að ofan eiga við um mína skilgreiningu á hver er frumkvöðull. Skýra vil ég mál mitt nánar. Að einhver ákveði að kaupa sér eitt stykki sælgætissjoppu sem er í fullum rekstri vil ég ekki meina að sá hinn sami sé frumkvöðull. Hann er miklu fremur athafnamaður. Að stofna nýja sjoppu á nýjum stað er heldur ekkert nýtt við og flokkast heldur ekki sem frumkvöðlastarf. Hafi hin umræddi einstaklingur á hinn bóginn valið að stofna nýstárlega sjoppu sem bæði er staðsett á óvenjulegum stað fyrir sjoppu að vera og sjoppu sem sérhæfir sig í því að selja t.d. lífrænt ræktað sælgæti sem framleitt er á Sierra Leone eingöngu, og um leið ákveður að láta 30% af söluandvirði renna til uppbyggingar á dagheimili þar í landi, þá gæti sá hin sami flokkast undir að vera frumkvöðull í mínum augum. Hægt er að taka annað dæmi af konu sem ákveður að láta framleiða fyrir sig nýja tegund af kertastjökum sem hafa innbyggt tímasett kerfi sem getur kveikt og slökkt á kertum sem gott dæmi um frumkvöðul. Í báðum tilvikum er um að ræða persónur sem hafa tekið ákvörðun um að fara í gang með nýjan rekstur sem hefur eitthvað nýtt fram að færa fyrir það þjóðfélag sem það býr í, með nýja nálgun til viðskiptanna og gefur þjóðfélaginu, sem viðkomandi starfar í, alveg nýja breidd.

Þetta með fjölliðurnar tengist því sem skiptir að mínu mati gríðarlega miklu máli í því að setja í gang nýtt verkefni. Ef frumkvöðullinn er ekki tilbúinn til að breytast sjálfur, eru talsvert minni líkur á að verkefnið lukkist að mínu mati. Ástæðan er sú að alveg eins og með litlu börnin sem eru að læra að ganga, þá þurfa ný verkefni að finna sinn farveg. Þó svo að verkefnið sé fast skilgreint í upphafi þá er ekki víst að það muni ganga best upp með þeim hætti. Verið getur að ákveðin stefnubreyting geti verið verkefninu hliðholt. Það er frumkvöðulsins sjálfs að meta.

Ekki skal skilja mál mitt með þeim hætti að sá einn geti talið sig vera frumkvöðul sem geri bókstaflega allt nýtt. Svo er ekki. Það sem ég tel merkilegt í þessu samhengi, og vil draga fram, er sú staðreynd að sá hinn sami sem ákveður að fara í gang með nýjan rekstur (þó svo að sá rekstur sé með einhverjum hætti sambærilegur mörgum öðrum) passi sig á því að finna á hvern hátt hann getur lagt fram nýja nálgun til verkefnisins. Það er að mínu mati alltaf hægt, bara spurning um að hugsa málið nánar. Málið er nefnilega þannig að ef þú ferð í gang með rekstur sem líkist öllum hinum, mun vera talsvert erfitt fyrir þig að skilgreina þig frá öðrum, og það verður erfitt fyrir þig að markaðsetja, því hví er þín vara eða þjónusta eitthvað betri en þeirra sem hafa verið í gangi í lengri tíma en þú? Að finna út úr því á hvern hátt þú getur skorið þig úr fjöldanum? Það er meðal annars eitt af því sem farið verður í á námskeiðinu.

Höfundur hefur MA í frumkvöðlafræði og MA í iðnhönnun. Hann hefur sjálfur unnið fyrir fyrirtæki bæði á Íslandi og erlendis og er stofnandi og eigandi að V6 Sprotahúsi.Hann hefur sjálfur verið með eigin hönnunarverkefni og selt hugmyndir og unnið að vöruþróun innan fyrirtækis. Hann hefur haldið námskeið í stofnun fyrirtækja og leiðbeint frumkvöðlum um árabil. The author has MA in Entrepreneurship and MA in Industrial design. He has worked within and in connection with companies both abroad and in Iceland. He has himself been selling his own designs and ideas and established his own company which he now runs himself. He has taught many and is teaching how to start your own company and as well offering a guidance to people with ideas and longings to establish their own companies.