Íslenskir frumkvöðlar hafa löngum ekki verið vel sýnilegir í íslensku samfélagi og skilgreindir sem slíkir. Vel er þekkt dæmi af framtakssömu fólki, fólki sem tókst að græða pening eða fólki sem tókst að breyta einhverju í Íslensku samfélagi án þess þó að þeir hafi verið skilgreindir undir heitinu frumkvöðlar. Frekar hefur verið talað um duglegt fólk, drífandi og jafnvel frekt. Skilgreining hefur ekki verið til á því hver fellur undir það að heita frumkvöðull og hver ekki.
Hér eru einstaklingar teknir fram sem falla undir eitthvað af eftirfarandi skilgreiningum. Er það von Frumkvöðuls að þessi skilgreining sé nægjanlega skýr til að flestir geti fallist á að viðkomandi falli undir eina af þessum skilgreiningum með réttu.
Hugvitsmaður – Viðkomandi er frjór og þekktur fyrir að hafa komið með mjög rótækar jafnvel tæknilegar hugmyndir sem leysa á ákveðin vandamál í daglegu lífi. Viðkomandi einstaklingur er ekki endilega og mjög líklega ekki sá aðili sem hefur eða mun fylgja hugmyndum sínum eftir fram til þess tímapunktar að hún sé farinn að lifa sjálf sem forsenda fyrirtækis eða að hún sé orðin að söluvöru í fyrirtæki í eigu eða undir stjórn viðkomandi hugvitsmans. Hugvitsmaðurinn hefur meiri áhuga á að halda áfram að koma með góðar hugmyndir, leysa vandamál og vinna við útfærslu þeirra og jafnvel smíði. Hann vill frekar lofa öðrum eða hann skortir sjálfur hæfileika, þekkingu, eiginleika til að markaðsvæða hugmyndina sér sjálfum til framdráttar. Margar ef ekki allar hugmyndir hugvitsmanssins er hægt að sækja um einkaleyfi á – og margar komast á þann stað í ferlinu.
Frumkvöðull – Þessi einstaklingur er þekktur fyrir að hafa komið einni eða fleiri viðskiptahugmyndum í framkvæmd. Fleiri af þessum hugmyndum, ef ekki allar eða sú eina falla undir þá skilgreiningu að hafa verið ný í íslensku samfélagi, og mjög líklega nægjanlega ný til að teljast flokkast undir að vera grundvallarbreyting á þekktum sambærilegum stærðum í heiminum. Hér er hugmyndin svo ný að hún þarf að búa sér til nýjan markað, markhóp og leysir vandamál sem áður hafa ekki verið leyst með sambærilegum hætti fyrr. Hugmyndirnar eða verkefnin eru mörg hver verjanleg samkvæmt einkaleyfum eða hönnunarverndum, eða í viðskiptalegum skilningi verjanleg vegna sérþekkingar frumkvöðuls á viðkomandi verkefni. Mörg verkefnana er ekki hægt að verja, en þykja svo sérstæð í framsetningu og útfærslu frumkvöðuls að augljóst þykir hvaðan það kemur og erfitt er að apa eftir.
Athafnamaður – Þessi einstaklingur sér viðskiptatækifæri í að hefja rekstur á nýju viðskiptatækifæri, sem oftar en ekki er þekkt verkefni einhverstaðar í heiminum þó það sé nýtt í viðkomandi landi. Sumir þessara aðila vinna með eða taka þátt í verkefnum með frumkvöðlum eða hugvitsmönnum en það er frekar undantekning en regla. Athafnamaður lítur á viðskiptatækifærið sem leið til að öðlast tekjur og tækifæri. Hann er sjaldan heimspekilega sinnaður og er sjaldan sá sem lítur á hlutverk sitt í samfélagslegum skilningi sem mikilvægt .