Fjölgum vel reknum sprotafyrirtækjum á Íslandi.

Hvernig á að byrja nýtt ár í fyrirtækjarekstri ?

Það er alltaf gott að setjast niður og skoða liðið ár og það sem er að hefjast, í upphafi hvers árs. Að skoða og velta fyrir sér hvað hefur gerst , eða ekki og hvað mátti fara betur og hvað sé planið að gera á nýju ári. Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna hér, sem gæti verið gott að hafa í huga, og skoða með tilliti til þess hvort þú ætlir þér að ná betri árangri með þitt verkefni /fyrirtæki, eða hvort þú ætlir þér að hefja rekstur á þessu ári. Byrjum á þér sem hefur ákveðið að hefja nýjan rekstur á árinu. Til að byrja með þá er gott að átta sig á því hvort þú sért búin að undirbúa reksturinn að fullu? Ertu búin að full fjármagna það sem á að gera, og eru áætlanir þínar byggðar á raunhæfum staðreyndum sem hægt er að treysta? Ertu með fókus á að ná sölu snemma og hvernig þú ætlar þér að ná til viðskiptavina með sölu og markaðssetningu? Varstu búin að gera varaplön varðandi það ef upphaflega planið gengur ekki upp (en það er næsta pottþétt að svo verður raunin). Hvaða aðilar eru með þér í verkefninu, eða munu aðstoða þig, og á hvaða forsendum koma þeir að verkefninu (hvað geta þeir lagt til)? Hvaða vörður ertu búin að setja þér, varðandi árangur og einnig varðandi það ef plönin ganga ekki upp, hvenær þú átt að breyta plönum til að draga úr áhættu og mistökum?
Ef þú ert með fyrirtæki í rekstri og vilt ná meiri árangri eru eftirfarandi spurningar mikilvægar. Hversu miklum upplýsingum býrðu yfir varðandi rekstur fyrirtækisins í heild sinni, þá bæði upplýsingar um reksturinn (kostnað, arðsemi, áhættu) og svo líka varðandi markaðinn, markhópinn og stöðu samkeppnisaðila? Hvaða markmið hefur þú gert og hversu nákvæm og skýr eru þau, ásamt því að vera auðvelt í framkvæmd og að ná? Hvaða aðila getur þú notað til að auka árangur þinn, hvar liggja veikleikar þínir og reksturs þíns fyrirtækis? Ef þú vildir breyta einum hlut, sem myndi geta haft mest áhrif á árangur fyrirtækisins til langs tíma – hvaða breyting væri það og hvernig getur þú látið hana verða að veruleika á árinu ?

Vona ég að árið verði þér og fyrirtækinu þínu gott og gjöfult.