Fjölgum vel reknum sprotafyrirtækjum á Íslandi.

Hver er munurinn á trésmíðafyrirtæki A og B? (7)

Áður birt á Frumkvodull.com – Wednesday, 06 February 2008 Það má ætlað með lestri á skrifum mínum hér á þessu bloggi að ég hafi tilhneigingu til að setja orðið og persónuna sem passar inn í orðið “frumkvöðull” á einhvern háan hest. Að ég líti svo á að frumkvöðull sé einstaklingur sem hafi yfirburði á einhverjum sviðum sem aðrir hafi ekki. Svarið við þessu er kannski ekki eins einfalt og halda mætti. Svarið er í raun tvíþætt. Á einn veginn er það staðreynd að margir af þeim ofurfrumkvöðlum síðari tíma hafa flest allir (þó ekki alveg allir) haft yfir sér ákveðin einkenni sem hægt er að segja að sameini þá. Þeir falla semsagt inn í ákveðinn ramma ákveðinnar skilgreiningar. Nokkrir standa þó út úr og af því er hægt að setja fram máltækið að öllum reglum fylgja nokkrar undantekningar og að undantekningarnar sanni regluna. Hitt svarið við spurningunni er á sama hátt og í fyrri skrifum þá hef ég haldið því fram að allir geti sungið, þá sé það sama með að vera frumkvöðull, það geta allir einnig……..ef að sá/sú hin sami/a ætlar sér að ná árangri á einhverjum sviðum.Ég vil semsagt meina að það þurfi ekki yfirburði heldur bara vita hvað beri að gera og gera það rétt. Og þar kemur að grundvallarástæðunni fyrir þessum námskeiðum sem ég er að bjóða upp á. Ég vil meina það að hver sá sem hefur hug á að fara út í sjálfstætt eða hefur áhuga á að koma hugmyndum sínum lengra en að lofa þeim að reika milli heilahvelanna, getur náð árangri…ef rétt er á málum haldið. Og þá getum við snúið okkur að spurningunni sem er í fyrirsögninni hvort einhver munur sé á trésmíðafyrirtæki A og B? Svarið er að ég tel svo geti verið. Annað fyrirtækið er stofnað af trésmíðameistara og lærling og þeir ákveða að gefa sig út fyrir að vera í öllum almennum trésmíðum. Þeir auglýsa sig og bjóða í verk og mæta til vinnu frá 8 til 6 og vinna stundum yfirvinnu. Fyriræki B er byggt upp á annan hátt. Það fyrirtæki samanstendur af trésmíðameistara sem hefur langan feril að baki í vinnu tengda bílageiranum og svo eru einnig eigendur að fyrirtækinu sem hafa reynslu úr bílaiðngreinum og svo gamall heildsali sem unnið hefur við að selja hluti til byggingariðnaðarins. Hugmyndin á bak við fyrirtækið er einföld og skýr. Að sérhæfa sig í smíði hágæða, umhverfisvæna, bílvæna og fjölskylduvæna bílskúra. Að bjóða upp á ákveðinn flokka af bílskúrum og hafa til reiðu 4 týpur af bílskúrsteikningum sem þeir vinna eftir. Að gefa viðskiptavini verð innan sólahrings og að klára verk innan mánaðar frá upphafstímapunkti. Hugmyndin er að bjóða upp á einfalda en hágæða lausn á sanngjörnu (töluvert þó dýru) verði sem svarar kalli markaðarins um “dótakassa” landans og umframeign á dýrum lúxusbílum. Skúrinn er hægt að stilla í ákveðnu hitastigi, hægt er að hlaða rafmagnsbíl í skúrnum, hægt er að þvo bílinn o.s.frv. Ok, hver er svo munurinn á A og B? Ég held að það þurfi ekki að ræða það frekar…er það? Dæmið er auðvitað uppspunnið frá rótum af mér sjálfum en dæmið sýnir m.a. hvað ég mun ræða um á námskeiðinu og þín hugmynd er í engu öðruvísi en þessi….nema kannski er hún ögn betri? Skráðu þig á námskeiðið og ræðum það ögn nánar Smile.

Geta allir verið frumkvöðlar? (6)

Áður birt á Frumkvodull.com – Tuesday, 05 February 2008

Það eru margir sem hafa þá trú að þeir séu vita laglausir. Þeir telja að, hvað sem tauti og rauli, þá sé algjörlega útilokað að þeir komi nokkurn tímann að syngja einn einstakan lagbút sem hljómi rétt og sé eins og lagbúturinn eigi að hljóma. Ég vil svara þessu til að allir geti sungið, þetta sé bara spurning um hvort fólk leggi sig fram um að reyna að æfa sig, fái réttar leiðbeiningar eða fái tækifæri til að læra á hvern hátt réttum tóni er náð. Ég get alveg samþykkt að ekki eru allir eins og fólk syngur misvel og hæfileikum fólks er misskipt. En það hefur lítið með það að gera hvort fólk geti sungið eður ei. Sumir syngja frábærlega og verða atvinnusöngvarar, aðrir syngja vel og geta sungið fyrir aðra þegar vel liggur við, og svo eru allir hinir sem geta sungið, og geta notið þess að syngja í góðra vina hóp. EN þeir geta sungið, og það skammlaust, bara spurning um tíma, æfingu og réttu leiðbeininguna. Það sama er hægt að segja um þá spurningu hvort ekki allir geti verið frumkvöðlar. Ég hef þá skoðun að allir geti verið það, bara spurning um hvort fólk gefi sér tíma, æfi sig og fái rétta handleiðslu og leiðbeiningu. Fólk þarf ekki að vera yfirmáta skapandi til að vera frumkvöðull og það þarf ekki að vera með algerlega glænýja lausn á takteininum til að geta orðið árangursríkt í því verkefni sem því langar mest til að sinna. Aðalatriðið er að hafa réttan fókus, rétta sýn og hæfileikann til að gera sér grein fyrir eigin hæfileikum og getu. Það er líka hægt að vera frumkvöðull á mismunandi hátt. Þú getur verið partur af hóp sem saman stendur af því að koma ákveðnu verkefni á koppinn. Þú getur verið með ákveðna sýn á ákveðnu málefni og fengið í lið með þér aðra sem gætu lagt eitthvað til málanna, þannig að verkefnið verði að veruleika. Þú gætir líka einfaldlega fengið góða hugmynd (allir geta fengið hana) og ákveðið að koma hugmyndinni í verk og jafnvel verð. En eitt er það atriði sem skiptir miklu í að vera frumkvöðull. Sá sem kemur verkefni af stað og ætlar sér að koma því lengra en að vera bara hugarfóstur upphafsmanns verður að þekkja verkefnið, eða umhverfið sem verkefnið á að vera í, mjög vel. Sá eða sú hin sama verður að hafa yfirburðarþekkingu á því sviði sem um ræðir og vita meiri en flestir aðrir. Með því að hafa yfirburðarþekkingu og nýta hana rétt (en það verður m.a. kennt á námskeiðinu) og nýta sér þá aðferðarfræði sem m.a. er kennt á námskeiðinu þá er möguleiki á að verkefnið getið orðið að veruleika og það geti skapað þér sem upphafsmanni meiri gleði og jafnvel talsvert meiri tekjur en þig jafnvel órar fyrir.

Hver er skilgreiningin á frumkvöðli ? (5)

 Áður birt á Frumkvodull.com – Monday, 04 February 2008

Orðið frumkvöðull er mikið notað þessa daganna og verður mér tíðrætt um þetta orð. Orðið er ekki nýtt en þó ekki endilega gamalt og hefur fyrst núna hin síðari ár verið tekið í notkun í takt við þann tíðaranda sem er við líði í íslensku þjóðfélagi. Orðið er skýrt út í íslenskri orðabók á eftirfarandi hátt:

Frum-kvöðull (K) 1. forgöngumaður, upphafsmaður. 2. (E) efni sem kemur af stað fjölliðun risasameinda með því að breytast sjálft.

Merkilegt nokk þá tel ég báðar skýringar hér að ofan eiga við um mína skilgreiningu á hver er frumkvöðull. Skýra vil ég mál mitt nánar. Að einhver ákveði að kaupa sér eitt stykki sælgætissjoppu sem er í fullum rekstri vil ég ekki meina að sá hinn sami sé frumkvöðull. Hann er miklu fremur athafnamaður. Að stofna nýja sjoppu á nýjum stað er heldur ekkert nýtt við og flokkast heldur ekki sem frumkvöðlastarf. Hafi hin umræddi einstaklingur á hinn bóginn valið að stofna nýstárlega sjoppu sem bæði er staðsett á óvenjulegum stað fyrir sjoppu að vera og sjoppu sem sérhæfir sig í því að selja t.d. lífrænt ræktað sælgæti sem framleitt er á Sierra Leone eingöngu, og um leið ákveður að láta 30% af söluandvirði renna til uppbyggingar á dagheimili þar í landi, þá gæti sá hin sami flokkast undir að vera frumkvöðull í mínum augum. Hægt er að taka annað dæmi af konu sem ákveður að láta framleiða fyrir sig nýja tegund af kertastjökum sem hafa innbyggt tímasett kerfi sem getur kveikt og slökkt á kertum sem gott dæmi um frumkvöðul. Í báðum tilvikum er um að ræða persónur sem hafa tekið ákvörðun um að fara í gang með nýjan rekstur sem hefur eitthvað nýtt fram að færa fyrir það þjóðfélag sem það býr í, með nýja nálgun til viðskiptanna og gefur þjóðfélaginu, sem viðkomandi starfar í, alveg nýja breidd.

Þetta með fjölliðurnar tengist því sem skiptir að mínu mati gríðarlega miklu máli í því að setja í gang nýtt verkefni. Ef frumkvöðullinn er ekki tilbúinn til að breytast sjálfur, eru talsvert minni líkur á að verkefnið lukkist að mínu mati. Ástæðan er sú að alveg eins og með litlu börnin sem eru að læra að ganga, þá þurfa ný verkefni að finna sinn farveg. Þó svo að verkefnið sé fast skilgreint í upphafi þá er ekki víst að það muni ganga best upp með þeim hætti. Verið getur að ákveðin stefnubreyting geti verið verkefninu hliðholt. Það er frumkvöðulsins sjálfs að meta.

Ekki skal skilja mál mitt með þeim hætti að sá einn geti talið sig vera frumkvöðul sem geri bókstaflega allt nýtt. Svo er ekki. Það sem ég tel merkilegt í þessu samhengi, og vil draga fram, er sú staðreynd að sá hinn sami sem ákveður að fara í gang með nýjan rekstur (þó svo að sá rekstur sé með einhverjum hætti sambærilegur mörgum öðrum) passi sig á því að finna á hvern hátt hann getur lagt fram nýja nálgun til verkefnisins. Það er að mínu mati alltaf hægt, bara spurning um að hugsa málið nánar. Málið er nefnilega þannig að ef þú ferð í gang með rekstur sem líkist öllum hinum, mun vera talsvert erfitt fyrir þig að skilgreina þig frá öðrum, og það verður erfitt fyrir þig að markaðsetja, því hví er þín vara eða þjónusta eitthvað betri en þeirra sem hafa verið í gangi í lengri tíma en þú? Að finna út úr því á hvern hátt þú getur skorið þig úr fjöldanum? Það er meðal annars eitt af því sem farið verður í á námskeiðinu.

Að taka áhættu (4)

Áður birt á Frumkvodull.com – Friday, 01 February 2008

Að taka áhættu hljómar neikvætt í hugum flestra. Orsökina er að finna í þeirri skilgreiningu að áhætta feli í sér neikvæðar afleiðingar að mestu því EF illa fer, þá muni það hafa mjög svo afleitar afleiðingar í för með sér fyrir þann sem tekur áhættu.

Áhætta er orð sem er mjög svo tengt við áhættusama fjárfestingu, fallhlífastökk eða klifur eða að þeir sem keyri of hratt séu að taka áhættu sem ekki sé samfélaginu þóknanlegt.

Það er sjaldnar að umræða um áhættu feli í sér jákvæðar tengingar. Að sá eða sú sem tók ákvörðun um að taka áhættu hafi haft af því gróða, gagn eða velgengni, nema vera skyldi að umræðan sé í öfundartón um hversu heppinn viðkomandi var. Að aðstæður hafi verið heppilegar eða að sá /sú hafi verið rétt manneskja á réttum stað á réttum tíma. Lítið þjóðfélag sem Ísland þekkir ekki mikið til fólks sem hefur tekið mikla áhættu í lífinu. Orsökina er að finna í þjóðfélagsgerðinni og viðhorfi fólks hvors til annars. Staðreyndin er sú að það er til fullt af fólki sem tekið hefur áhættur og það miklar í lífinu, en fáir gera sér almennilega grein fyrir því að svo hafi verið, nema kannski bara þeir sem sitja næst þeim sem tók áhættu. Þeir tóku nefnilega áhættu líka .

En staðreyndin er engu að síður sú að áhætta þarf ekki endilega að vera neikvætt orð og það að taka áhættu þarf ekki endilega að fela í sér neikvæðar afleiðingar eða neikvæða tengingu. Hægt er að orða það á annan veg og segja, að sá sem ekki prófar getur ekki vitað hvernig það fer eða hvaða afleiðingar það hefur í för með sér. Hik er sama og tap og ef þú ekki smakkar matinn, hvernig áttu dæma það, hvort þér finnst hann góður eða ei.

Hægt er einnig að segja að það er mikil munur á stórri áhættu og lítilli áhættu. Hægt er að taka dæmi af manni sem ákveður að veðsetja húsið sitt til að kaupa hlut í fyrirtæki sem hann hefur trú á eða manni sem fjárfestir eina milljón krónur af tveimur sem hann á í banka til að kaupa í fyrirtæki. Munurinn fellst í því að báðir tóku áhættu, annar setti allt undir og hinn setti pening sem hann getur horft hverfa án þess að bera skarðan hlut frá borði.

En ef við lítum síðan á það að stofna fyrirtæki í kringum hugmynd sem viðkomandi hefur verið að vinna með. Það er heilmikill munur að fjárfesta í verkefni annarra eða fjárfesta í sjálfum sér. Ég vil t.d. meina að það skipti máli hvort þú hafir nægjanlega mikla trú á verkefni þínu og hæfileikum þínum og þinni sérþekkingu til að vera tilbúinn að setja eitthvað undir, eða allt. Það er í mínum huga stór munur á því hvort ég fjárfesti í Sigga í næsta húsi eða sjálfum mér. Og það skiptir líka máli hvort ég hafi trú á að Siggi í næsta húsi hafi sérþekkingu á sínu verkefni eður ei, hvort verkefnið sé áhugasamt fjárfestingatækifæri.

Maður getur ekki annað en tekið ákvörðun byggða á innri sannfæringu um að áhættan sé þess virði að fjárfesta skuli í sjálfum sér eða Sigga í næsta húsi. Og svo er þetta spurning um hvort þú veðsetur húsið, eða bara miljón sem lítið hlutfall af tekjum þínum þannig að afleiðing (ef illa fari) sé ekki stærri en svo að þú sem einstaklingur getur ráðið við það.

Það er nefnilega heilmikið hægt að gera við milljón….ef rétt er að farið.

Hvað hægt er að gera við milljón…..færðu að vita um á námskeiðinu….. Smile

Geta hópar verið frumkvöðlar.

Áður birt á Frumkvöðull.com – Thursday, 31 January 2008

Einhverjum gæti dottið í hug að spyrja hvort verið gæti að hópur af fólki geti verið frumkvöðlar og er til einfalt svar við því. Já. Staðreyndin er nefnilega sú að ef eitthvað þá er búið að sýna fram á að fólk í hóp á það til að vera meira skapandi heldur en einn einstaklingur. Dæmi um slíkan hóp er hópurinn sem stendur á bak við Vesturport með Gísla Örn Garðarson í forsvari. Vandamálið snýr hinsvegar að því að koma sér saman um eitthvað, sameiginlega stefnu, markmið og framtíðarsýn, og svo ekki sé talað um að vita hver á að sjá um stjórnun, standa í forsvari fyrir hópinn og taka ábyrgð á öllu sem gert er á vegum hópsins. Þar kemur inn í sá þáttur sem snýr að því að koma verkefni í gang og er einn sá mikilvægasti fyrir hvern þann frumkvöðul sem tekst á við það; leiðtogahlutverkið. Að því leitinu til er það þannig farið að sá hinn sami sem tekur að sér að vera leiðtogi hópsins er að því leitinu til ögn pínu meiri frumkvöðull en hinir því hann hefur þá eiginleika að bera að geta tekið að sé þetta mikilvæga hlutverk. Það er í raun þannig farið með þá sem flokkast undir að vera frumkvöðlar að þeir þurfa að taka á sig það ábyrgðarmikla hlutverk að verða leiðtogi annaðhvort hóps eða verkefnis sem um ræðir. Að vera leiðtogi snýst um að geta tekið skjótar ákvarðanir þegar mest brýnir á, að geta borið ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru, að standa og falla með þeim ákvörðunum og að þora að vera andlit verkefnis eða hóps sem jafnvel á eftir að sanna sig og stendur jafnvel undir kröfum markaðarins um að sýna fram á eitthvað. Dæmi um þetta er Steve Jobs stofnandi og eigandi Apple tölvufyrirtækisins. Hann hefur oftar en einu sinni tekið ákvörðun sem hefur verið í andstöðu við ríkjandi viðhorf og væntingar og haldið fast við þá sýn sem hann sjálfur hefur haft á verkefninu að koma fyrirtækinu á þann stað að verða eitt af framsæknustu á markaðnum. Með þessu hefur hann gert fyrirtækið að mjög umdeildu fyrirtæki, en um leið og honum hefur tekist vel upp þá hefur honum verið hrósað fyrir réttar ákvarðanir en einnig hallmælt fyrir að hafa tekið rangar ákvarðanir. Enn sem komið er hefur hann tekið fleiri ákvarðanir sem hafa þótt vera réttar. Með þessum hætti hefur Steve tekist ætlunarverk sitt og um leið þurft bæði að bera kostina og gallana við að vera frumkvöðull. Það er eitt af einkennum þess að setja verkefni í gang, að maður verður að hafa fulla trú á verkefninu og að það sé það eina rétta í stöðunni þá stundina. Það er nefnilega þannig farið að ef frumkvöðullinn hefur ekki nægjanlega mikla trú á verkefninu, þannig að hann sé tilbúinn að vaða eld og brennistein fyrir það…….þá getur verið erfitt fyrir hann að sannfæra aðra um að setja pening í það eða þá að kaupa þá vöru eða þjónustu sem um ræðir.

En eftir stendur ein mikilvæg staðreynd sem skal aldrei vanmeta og reyndar hafa ávallt hugfast við það að setja verkefni í gang. Frumkvöðullinn mun aldrei geta þetta einn. Hann mun þurfa á stuðningi, hjálp og samvinnu margra ólíkra aðila sem koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti og má eiginlega segja að án þessa fólks sé verkefnið dautt. Frumkvöðullinn þarf því að átta sig á mikilvægi þess að hafa í kringum sig réttan mannskap og meta þann mannskap að fullu.

Hver er frumkvöðull? – Frumkvöðull

Áður birt á Frumkvöðull.com – Wednesday, 30 January 2008

2. Hver er frumkvöðull?

Oft er það svo að frumkvöðull oft telur sjálfan sig ekki vera neinn frumkvöðul. Hann eða hún er bara vinnandi vinnuna sína og líta á sjálfan sig sem einn einstakling af mörgum sem hafi í raun fátt merkilegra fram að færa en nokkur annar á vinnustaðnum. Vinnan er jafnvel staður sem viðkomandi hefur haft sem fastan samastað í lengri tíma og ekki hefur komið nokkuð í ljós sem gefa mætti tilefni til að ætla að viðkomandi væri frumkvöðull.

Þessum hópi vil ég í raun skipta í tvo hópa. Einn hópurinn samansendur af einstaklingum sem hafa þann háttinn á að reyna alltaf að finna nýja og betri leið við að leysa verkefni dagsins með það fyrir augum að bæta vinnufyrirkomulag, auka arðsemi, gera vinnuna skemmtilegri eða auðveldari, auka gæði vinnunar eða að betrumbæta eitthvað sem viðkomandi telur að bæta megi. Viðkomandi lítur ekki á sjálfan sig sem frumkvöðul, þó svo að í mínum augum sé hann það. Viðkomandi lítur miklu frekar á að það starf sem hann sé að sinna beri að vinna eftir bestu hugsanlegu færu leiðinni í það og það skiptið, og það sé hagur allra að hlutir séu bættir ef tækifæri gefast til betrumbætingar. Samviskusemi og hugmyndaauðgi af þessu tagi eru oft á tíðum vanmetin af atvinnurekendum og jafnvel gengið svo langt að biðja viðkomandi að draga úr þessari þörf fyrir að breyta. Ástæðan sé talin vera sú að breyting sé í augum atvinnurekanda vond ef ekki er hægt að sjá breytinguna samtímis í krónutölu í peningakassanum. Það sem gleymist í þessu samhengi er tvennt. Annarsvegar er það sú staðreynd að breyting getur oftast verið góð, því hlutir standa sjaldnast í stað, og gott er að venja fólk á að geta breytt hlutum sem annars fellur í vana og stíf form hefðar. Hitt er það að breyting mun oftast þurfa lengri tíma til að sanna sig en svo að hægt sé að sjá áhrifin strax í krónutölu í kassanum. Eina undantekningin á þessu er ef breytingar eru framkvæmdar sem hluti af vinnuferli fyrirtækis og að eitt af markmiðum fyrirtækisins sé m.a. að vera öðruvísi en samkeppnisaðillinn. Slíkt vinnuferli er einungis að litlu marki þekkt hér á landi. Persónan sem lýst er að ofan velur sér tvær leiðir í lífinu. Ein leiðin er að vinna í viðkomandi fyrirtæki sem lengst og vinna starfið vel og samviskusamlega. Hin er að hætta og finna sér nýjan vettvang þar sem starfið er metið. Oft vill það verða að viðkomandi velur að fara sjálfstætt. Ekki er víst að viðkomandi líti á sjálfan sig sem frumkvöðul þrátt fyrir það.

Hinn hópurinn sem ég átti eftir að nefna samanstendur af fólki sem hefur unnið við ákveðið starf í mörg ár og þekkir starfið, starfsviðið og umhverfi starfsins mæta vel. Hefur viðkomandi ávallt sinnt sínu starfi án þess að íhuga nokkrar breytingar á sínum högum. En í gegnum langan tíma fara að vaxa vangaveltur um að tækifæri séu á að gera hluti með öðrum hætti en viðkomandi gerir í sínu starfi. Dæmi um þetta gæti verið saga af leigubílstjóra sem hefur unnið við það að keyra hefðbundin leigubíl í mörg ár og gengið vel. Einn daginn eftir langar vangaveltur og jafnvel smá könnun í eigin ranni tekur viðkomandi upp á því að í stað þess að fjárfesta í nýjum Toyota station bíl ákveður sá hinn sami að eyða nú nokkrum fleiri þúsundköllum til kaupa á einni AMERÍSKRI eðaldrossíu með leðri og lúxus og tilheyrandi. Í framhaldinu fer hann svo að selja þjónustu sína á hærra verði til annars hóps af viðskipavinum og vinnufyrirkomulagið er með öðrum hætti en var. En dæmið sem ég kem með er frekar einfalt, og oft er þetta ekki svo einfalt fyrir fólki í þessari stöðu. Það er til að mynda ekki alltaf að dæmið sé svo fyrirliggjandi og þekkt, eins og að kaupa annan bíl í stað hins, og hækka verð og að slíkt reiknisdæmi sé vel þekkt frá erlendum vettvangi. Oft getur verið um að ræða tækifæri í rekstri fyrirtækis sem þurfi að passa inn í fyrirliggjandi umhverfi, að markaðurinn er með öðrum hætti en þekkt er, og ekki síst sú staðreynd að viðkomandi sem ákveður að gera eitthvað nýtt hefur ekki unnið sjálfstætt áður og veit þarafleiðandi ekki hvað þurfi að gera til að fóta sig á opnum markaði þar sem samkeppni ræður ríkjum og eins dauði er annars brauð.

Báðir þessir hópar eru frumkvöðlar í mínum augum………en hvernig eiga þeir að vita hvað beri að gera…..Námskeiðið veitir svar við því.

Að slípa hjólið – Frumkvöðull

Áður birt á Frumkvöðull.com bloggsíðu – Tuesday, 29 January 2008

Einn aðal helsti kjarni frumkvöðlamennsku er að setja í gang verkefni sem hefur eitthvað nýtt fram að færa til þjóðfélagsins þar sem frumkvöðullinn býr. Í því fellst að þetta nýja er oftar en ekki nýtt fyrir þeim í þjóðfélaginu sem eiga að falla fyrir hugmyndinni. Ein af undantekningunum er þegar þetta nýja er fengið að láni erlendis frá og eru þá kannski einhverjir í þjóðfélaginu sem hafa nýtt sér þessa þjónustu eða keypt þá vöru sem um ræðir s.b. KFC, DOMINOS, STARBUCKS (eða kaffihús af svipuðu tagi). Vegna þekkingar eru þeir mun viljugri til að láta á reyna og styðja við bakið á frumkvöðlinum með einhverjum hætti. Þeir hafa trú á verkefninu eða eru tilbúinir til að standa fyrstir í röðinni af nýjum kúnnum og eru tilbúnir til að greiða uppsett verð fyrir vöruna eða þjónustuna.Ef verkefnið er byggt á þekktum normum er það ein leið til að eiga auðveldara með að innleiða verkefnið. Dæmi um þetta er t.d Bónus sem byggir á þeirri einföldu lógík að allt sé ódýrast þar og gengur reksturinn út á að hafa allan kostnað og útlit og innihald og utanumhald sem ódýrast. Þetta er dæmi sem velþekkt er erlendis. Annað dæmi um velþekkt norm er þegar fyrirtæki býður upp á mun betri og meiri þjónustu og jafnvel talað er um lúxus sem aðal útgangspunkt. Dæmi um þetta gæti verið t.d limmósínu-þjónusta eða sala á hátískufatnaði eða fatnaði byggða á einum hönnuði eða persónu sem er þekkt eða fræg.Það sem er allra erfiðast að innleiða, er að fara í gang með verkefni sem er svo nýtt af nálinni að enginn í þjóðfélaginu þekkir til neins slíks sambærilegs verkefnis sem hægt er að miða við. Verkefnið hefur nýja nálgun, er byggt á nýrri hugmyndafræði og er ætlað að gera allt annað og miklu meira en aðrir sambærilegir hlutir sem hafa verið reyndir áður. Dæmi um þetta er t.d. Latibær. Þar er um að ræða hugmynd um að bæta heilsu barna með afþreyingarefni sem bæði er ætlað að vera til upplýsingar og fræðslu og menntunar. Hugmyndin snýst ekki um að búa til einn lítinn sjónvarpsþátt heldur marga og framleiða þá með þeim hætti að ekki sé annað til sem er þekkt og sambærilegt á þessu landi.

Svona verkefni er hvað erfiðast að koma í gang fyrir frumkvöðul og er ekki fyrir hvern sem er að standa og falla með. Nokkrir þættir eru mikilvægir í þessu samhengi og vert er að kíkja ögn nánar á þá til að skilja forsendurnar.

  1. Upphafsmaðurinn Magnús Scheving hafði mikla reynslu af hreyfingu og var búin að leggja stund á fyrirlestra fyrir börn í mörg ár áður en hann fór í gang með verkefnið fyrir alvöru.
  2. Hann hafði markvist unnið að uppbyggingu verkefnisins í gegnum langan tíma og hóf verkefnið með bók og leikriti sem tók mörgum markverðum breytingum í gegnum tímann.
  3. Hann hafði lagt allt undir og að auki lagt fyrir til að eiga fyrir þeim kostnaði sem til féll í upphafi.
  4. Hann hafði í kringum sig fólk sem hafði trú á honum og allavega einhverja sem voru tilbúnir til að styðja við bakið á honum. Þar má m.a nefna konu hans sem hefur verið honum mjög mikilvæg því hún hefur m.a séð um fjármálin og er það ekki lítill þáttur í vexti fyrirtækis.
  5. Magnús hefur í gegnum tímann haft mikla orku og vinnugetu og haft stóra sýn á því hvað hann ætlaði sér. Það að vera framsýnn og stórhuga getur á svona stundum verið kostur þó svo að margur telji manninn galinn fram að því að sýnin verði að veruleika.

Það að vera frumkvöðull þarf ekkert endilega að snúast um það að verða jafn stór, frægur, ríkur og umsvifamikill og Magnús Scheving. Konan sem stofnar lítið konfektbakarí niður í bæ með einum starfsmanni er alveg jafn mikil frumkvöðull og getur haft það alveg jafn gott og Magnús. Málið snýst um að snúa sér að því sem maður er góður í og slípa hjólið þangað til það rennur vel. Ef maður er góður í einhverju, þá verður maður líka ánægður við að framkvæma það og þá eru miklar líkur til að manni takist að fá salt í grautinn við að framkvæma það sem maður er góður til. Ef manni tekst svo að fá fólk í lið með sér sem er gott í einhverju öðru sem maður hefur þörf fyrir í tengslum við verkefnið……ja þá eru miklir möguleikar á að árangur náist í takti við fyrirtætlanir. EN…….vanda skal verk þá hafið er og í upphafi skyldi endinn skoða.